Sigurđur G. Guđjónsson Sigurđur G. Guđjónsson | ţriđjudagurinn 16. desember 2008

Stjórn í kreppu

Það er nóg hjá ykkur lögfræðingum að gera núna hefur glumið í  eyrum manns sérhvern dag sína  bankakreppan lagðist eins og mara yfir Ísland og allt sem íslenskt er nú í lok september. Það má vel vera að þessi ógæfa hafi skapað einhverjum lögmönnum aukin störf við kröfu  innheimtu og skipti búa þeirra, sem nú eru að missa fyrirtæki sín, heimili og aðrar eigur. Hins vegar er það svo að hvorki kreppa né önnur vandræði einstaklinga eða lögaðila færa lögmönnum gull og græna skóga. Gull og grænir skógar  fyrir alla fylgja fyrst og fremst þeim störfum lögmanna, sem lúta að vernd réttarríkisins gegn yfirgangi stjórnvalda, hvort heldur það er á krepputímum eða ekki. Þess vegna má reikna með því að það verði mikið að gera hjá lögmönnum þegar ríkisvaldið fer að beita fyrir sig sérstökum saksóknara og hinni afar sérstöku rannsóknarnefnd, sem Alþingi hefur nú komið á laggirnar til að greina orsök fjármálakreppunnar. Nefnd þessi er einhvers konar friðþæginarapparat stjórnvalda; vitnisburður um að þau séu að gera eitthvað til að greina orsakir þess að Ísland er gjaldþrota; finna einhvern eða einhverja sem hægt er að benda á og taka úr umferð til að róa óróaöldur samfélagsins, sem verða þyngri og þyngri með hverjum deginum sem líður.
Mitt í þessu ölduróti vekur það óhjákvæmilega athygli hvað löggjafar- og framkvæamdavaldið eru lítið að velta því fyrir sér hverning þau ætla að leiða Ísland út úr kreppunni. Miklu fremur virðast stjórnvöld ætla að ganga að öllu atvinnulífi dauðu þar sem enga peninga er að fá til atvinnurekstrar og ef þeir fást eru þeír lánaðri gegn okurvöxtum. Vöxtum sem leitt hefðu til fangelsisvistar hvers þess sem þeirra hefði krafist fyrir um 23 árum.
Löggjafinn sem sí og á klifar á sjálfstæði sínu gagnvart framkvæmdavaldinu lætur sig hafa það að skjóta gegnum þingið á 89 mínútum frumvarpi til aukinnar skattheimtum. Á sama tíma vefst það fyrir þessum sömu alþingismönnum að koma nýrri og heilbrigðri skipan á eftirlaun sín og nokkurra embættismanna. Þar mun spurning um vernd eignarréttinda eitthvað þvælast fyrir, sem eðlilegt er, enda er hann verndaður af stjórnarskrá. Þetta sama eignarréttarákvæði virtist hins vegar hafa verið gleymt og grafið þegar þingmenn settu neyðarlögin svokölluðu aðfaranótt 7. október. Með þeim var freklega gengið á eignarréttindi erlendra lánadrottna íslensku bankann; bankanna sem Seðlabanki Íslands knésetti með þjóðnýtingu Glitnis banka þann 29. september.
Athyglisvert er að enginn virðist spyrja hver var sökudólgurinn í þeirri aðgerð allri; hvers vegna kom það mál ekki til kasta ríkisstjórnarinnar sem fjölskipaðs stjórnvalds; hvers vegna var látið duga að pukrast með það á fundum úti í New York og síðan í Reykjavík; engra spurninga spurt; engin greining á stöðu íslenska bankakerfisins framkvæmd; kannski þurfti þess ekki ef það er rétt sem formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands hefur sagt að hann hafi greint formönnum stjórnarflokkanna frá því mörgum sinnum á þessu ári að bankakefið íslenska væri gjaldþrota.  Hver segir satt formenn stjórnar flokkanna eða formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Hann segist eiga upplýsingar um þetta á bandi, sem engin geti þó fengið aðgang að. Forsætisráðherra ber fullt traust til formanns bankastjórnarinnar og sennilega er hann þá að segja satt og rétt frá samskiptum sínum við formenn stjórnarflokkanna.
Til að róa þjóðina lætur formaður Samfylkingarinnar þau boð út ganga gegnum spunameistara sína að til álita komi að stokka upp í ríkisstjórn og fórna einum til tveimur ráðherrum úr liði sínu  í þeirri von að öldur reiðinnar dvíni. Sú verður raunin ekki, enda skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn. Öldur reiðinnar dvína fyrst þegar fólkið í landinu finnur fyrir öryggi á ný; það öryggi verður ekki skapað með samræðupólitík og rannsóknum heldur raunhæfum tillögum til úrbóta í atvinnulífi og uppbyggingu þess þannig að vofu atvinnuleysis verði bægt á braut. Stjórn í kreppu gengur út á skilvirka ákvarðanatökuog lausnir en hvorki froðusnakk né rannsóknir. Þeir brotlegu ef einhverjir eru verða afhjúpaðir án mikils tilkostnaðar í tímans rás hvar sem þá er að finna.